Almennt um vinnuteikningar
Varpanir (Projections)
Vinnuteikningar byggja á vörpunum þar sem ólík sjónarhorn líkansins eru sýnd til frekar glöggvunar á uppbygginu þess eða til þess að auðvelda framleiðslu líkansins. Í forriti eins og Creo er hægt að sýna líkön í formi vinnuteikninga á ýmsan hátt.
Annars kemur hugtakið vörpun úr stærðfræðinni, en þar er hún skilgreind sem aðferð sem felst í að taka eitt að fleiri stök úr svo nefndu formengi vörpunarinnar og mynda úr þeim nýtt stak, oftast eftir ákveðinni forskrift eða reiknireglu, í bakmengi vörpunarinnar. Myndmengi vörpunar inniheldur þau stök bakmengis, sem stök formengisins varpast í. Stærðfræðilegt fall á yfirleitt við vörpun, það er fyrir sérhvert stak í formenginu er til eitt og á aðeins sitt stak í myndmenginu, en stundum eru orðin „vörpun“ og „fall“ notuð sem samheiti.
Réttvörpun (Orthographic)
Í réttvörpun teiknar maður t.d. fyrst upp hlið hlutarins, veltir honum síðan á endann og svo aftur þannig að hann liggi á bakinu, teiknar upp grunnmyndina. Það sem ekki sést er síðan teiknað með strikalínum.
Horft er á réttvarpaðan hlut frá framhlið, toppi og hægri eða vinstri. Hægt er að velja um fyrsta eða þriðja sjónarhorns vörpun, þ.e. að varpa toppi grunnmyndar fram eða botni fram. Fyrsta stigs vörpun er almennt notuð í Evrópu en þriðjastigs vörpun í Ameríku.
Þannig réttvarpar maður t.d. eldspýtustokk:
Hérna er annað dæmi um réttvörpun.
Hérna er enn annað dæmi um réttvörpun.
Skávörpun (Axonometric)
Skávörpun er einföld aðferð við þrívíddarteikningu. Aðferðin er einkum notuð til að sýna útlit hluta í þrívídd. Í þessari aðferð er skálínan alltaf 45° frá grunnlínu blaðsins. Fyrst er framhliðin teiknuð og síðan varpað út frá henni. Athugið að skálínurnar eru alltaf teiknaðar sem helmingur af raunverulegri lengd þeirra. Skávörpun sýnir framhlið hlutarins eins og sköpulag hans er.
Hægt er að nota sérstök rúðustikuð blöð fyrir skávörpunarteikningar og fylgja þau með þessu námsefni. Sjálfsagt er að ljósrita þau og gefa nemendum. Það er annaðhvort hægt að teikna beint á þau eða hafa þau undir gegnsæjum pappír (smjörpappír).
Dæmi um þessa aðferð er t.d. skávarpaður eldspýtustokkur.
Annað dæmi er þessi stafur C.
Ísómetría
Ísómetría er einföld aðferð við þrívíddarteikningu. Aðferðin er einkum notuð til að sýna útlit og virkni í þrívídd. Í þessari aðferð er skálínan alltaf 30° frá grunnlínu blaðsins. Fyrst er framhliðin teiknuð og síðan varpað út frá henni.
Hægt er að nota sérstök hjálparrúðublöð fyrir ísómetríuteikningar. Sjálfsagt er að ljósrita þau og gefa nemendum á meðan þeir eru að þjálfa sig. Það er annað hvort hægt að teikna beint á þau eða hafa þau undir gegnsæjum pappír (smjörpappír).
Dæmi um þessa aðferð:
Annað dæmi er þessi stafur C.
Sniðmynd eða sneiðingur
Oft getur verið nauðsynlegt að geta teiknað og útskýrt hvernig hlutirnir eru að innan. Sneiðing gerir það. Besta aðferðin til að skilja og útskýra er eflaust að saga í sundur gamalt leikfang og teikna síðan upp það sem maður sér eða hlutinn þannig að sárið sjáist. Skástrika skal sárið til þess að auðkenna það. Þegar það er gert er auðveldara að ímynda sér hvernig hluturinn lítur út innan frá.
Hérna eru dæmi um sneiðing.
Hérna er enn annað dæmi um sneiðing í formi þversniðs.
Oft þarf að nota þversnið til að útskýra atriði og lýsa innri þáttum í líkaninu. Muna þarf að málsetja aldrei falið smáatriði heldur sniðmyndina sjálfa. Hornréttur grunnflötur í grunnmynd er notaður sem skurðarflötur til að leyfa vörpuðu sjónarhorni að vera sýnt í þversniði.