Inngangur og kynning á Creo 2
Hugbúnaðarfyrirtækið PTC gefur íslenskum skólum tækifæri til að nota þrívíddarhönnunarhugbúnaðinn Creo 2 í íslenskum skólum. Creo 2 gefur kennurum og nemendum tækifæri til þess að teikna og útfæra hugmyndir sínar í þrívíðu tölvutæku formi á auðveldan hátt. Kennsluefni hefur verið þróað í mörgum löndum, t.d. í Bretlandi og Ameríku, sem nýtt hafa hugbúnaðinn. Þykir forritið notendavænt fyrir áhugasama, sem geta sett það upp á eigin tölvu, teiknað frummyndir að lausnum á þörfum í eigin umhverfi og eflt þannig færni sína með heimavinnu.
Þrír meginþættir venjulegrar þrívíddarhönnunar sem allt er hægt að framkvæma í Creo 2 ásamt mörgu öðru:
Hönnun þrívíddarlíkana á tölvuskjá
Þegar frumhugmyndin er teiknuð upp er þrívíddarteiknihamur forritsins notaður. Hér fer grundvallarhönnunarvinnan fram. Grunnmyndir eru teiknaðar, þeim lyft til að mynda form og það teygt til eftir þörfum. Hægt er að bæta við formið eða setja saman samsettan hlut úr mörgum formum. Auðvelt er að málsetja hlutinn og skoða frá ólíkum sjónarhornum.
Hlutir glæddir efnisáferðum
Auðvelt er að glæða hluti efnisáferðum. Í Creo 2er safn efnisáferða, en einnig er hægt með stafrænni myndavél að setja upp safn af eigin áferðum. Þá eru myndir teknar af yfirborði þess efnis sem höfundur hlutarins vill nota þegar hann er smíðaður. Hægt er að skoða hlutinn í þessum ham forritsins frá ólíkum sjónarhornum, með mismunandi linsum og lýsingu. Einnig er hægt að setja ljósmyndir inn á hluta myndarinnar, t.d. sem skraut.
Gerð vinnuteikninga
Hægt er að setja upp vinnuteikningar þegar búið er að hanna hlutinn í þrívíddarham forritsins. Einnig er hægt að teikna hluti beint upp í vinnuteikningaham forritsins. Myndirnar má málsetja og er þá hægt að smíða þær í þeim hlutföllum sem höfundur hugmyndarinnar vill hafa hlutinn í. Þannig getur t.d. einstaklingur eða hópur sem kemur fram með nýjung þróað gögn sem nota má þegar sótt er um einkaleyfi eða hönnunarvernd.
Tenging Creo 2 við CNC vélar
Tölvustudd framleiðsla (CAM) er gerð hluta með búnaði sem stjórnað er af tölvu samkvæmt tölvustuddri hönnunarteikningu. Hluturinn er síðan mótaður í CNC vél. CNC er búnaður sem hægt er að stjórna með tölvu til að móta hluti. Með þessari tækni er hægt að fjöldaframleiða hluti á skömmum tíma, með mikilli nákvæmni. Nemandi sem fer í gegnum slíkt ferli kynnist heimi nútíma iðnhönnunar og upplifir hönnunarferlið frá fyrstu hendi þ.e. frá hugmynd yfir í framleidda vöru.